Viltu Bónus? 2.hluti Líftalan.

Nú verður fjallað um líftölu i mjólk frá bændum og helstu atriði sem þurfa að vera í lagi ef mjólkurframleiðandinn er að slægjast eftir bónusgreiðslu og vill halda líftölunni í skefjum

Líftala í mjólk eins og hún er mæld í dag telur gerlafjölda í einum millilítra
mjólkur og gefur nokkuð skýra mynd hvað varðar þessa hlið mjólkurgæðanna.
Þarna á talan að vera sem lægst, hún er gefin uppí þúsundum, t.d. 12 þýðir 12 þúsund í millilítra mjólkur.
Það á enginn mjólkurframleiðandi að þurfa að vera ofan við 20 í líftölu ef sæmilega er vandað til verka og búnaður í lagi.
Séu bændur að staðaldri yfir þeim mörkum er örugglega eitthvað sem betur má fara.
Oftast er hægt að greina orsakir hækkunnar á líftölu við nákvæma skoðun á viðkomandi bæjum.

Líftalan hækkar.
Líftöluhopp s.k. og stígandi hækkun líftölu eru oft af ólíkum ástæðum, óvænt hopp er oftast vankæling, bráðajúgurbólga, (oft að undirlagi E-colí) í þriðja lagi verulega slæmur drullugangur við mjaltir, í fjórða lagi kerfi eða mjólkurtank skortir þvottaefni.
Stígandi hækkun er oftast um að kenna vanþrifum þ.e. lélegum kerfisþrifum vegna lélegs þvottakerfis eða þvottur er of kaldur, þvottaefni skortir eða henntar ekki, vatnsgæðum og hitastigi og svo hefur hirðing gripa, júgurþvottur, þrif fjóss og loftræsting einnig áhrif í stöðugu háu líftöluinnihaldi, og ekki má gleyma göttóttum og gömlum spenagúmmíum.

Mjólkurdælan þ.e. sem dælir mjólkinni í mjólkurtankinn frá mjaltakerfinu er mjög oft sökudólgur í hækkun líftölu og verður að taka sundur dæluhúsið reglulega og skoða þrif, einnig verður að skipta um ásþéttingar dælunnar svo hún sé ætíð þétt og píski ekki lofti.
Þá er einnig algengt að spenagúmmí eru gerð allt of gömul og jafnvel orðin götótt á legg, en gömul slitin spenagúmmí valda hækkun líftölu og einnig hækkun á FFS auk þess að orsaka óbeint hækkun frumutölu og júgurbólgu.
Það er því áríðandi að fá þjónustufulltrúa í forvarnarvinnu árlega a.m.k. og yfirfara og skoða hvað er komið á tíma s.s. spengúmmí, mjólkurslöngur, kranapakkkningar og mjólkurdæluþéttingar.

Auk þess mælir hann alla áhrifaþætti s.s. soghæð og sogskipta.
Bóndinn þarf svo að skipta sjálfur um spenagúmmí í millitíðinni eða eftir 6 mánuði í hefðbundnum mjaltakerfum, annað gildir um mjaltaþjóna enda eru þeir þjónustaðir 3-4 sinnum á ári.

Þvotturinn.
Hér áður fyrr þegar flestir voru með rörmjaltakerfi eða kútakerfi í grifjum var þvottur kerfanna lélegur þ.e.a.s. flestar kerfisþvottavélar þvoðu og skoluðu ílla, lágur vatnshiti víðast hvar og skolun venjulega afar lítil og ófullnægjandi.
Í dag eru þvottakerfin flest með rafmagnshitun á þvottavatnið og hægt að forrita vélarnar eins og mönnum listir.
Hiti sápuþvottar ætti að vera 80 – 82°C í byrjun, vatnið kólnar mjög fljótt í hringrásinni í kerfinu og því ófullnægjandi að byrja með 70 – 72 °C eins og sumir vilja hafa það.

Við hærra hitastigið má segja að kerfið gerilsneyðist algjörlega.
Þvottatíminnn á að vera 8 – 10 mín. og sápuþvottinum á að ljúka áður en vatnshitinn fer niður fyrir 40°C svo óhreinindin ásamt fitu og próteini fari ekki að setjast inní kerfið aftur.
Þetta er áríðandi og magn hreinsiefna þarf að vera u.þ.b. 0,4 – 0,7 % upplausn, fer eftir gerðum og fjölda mjaltatækja ásamt gerð hreinsiefnis.

Súrt skal það vera.
Ekki má gleyma súrum þvotti einu sinni til tvisvar í viku því hann hindrar steinmyndun sem erfitt er að uppræta ef byrjar að setjast í kerfið (notið ekki saltpéturssýru, henni ætti að vera búið að útrýma úr mjólkuriðnaði vegna hugsanlegrar nitrat-nitrit mengunar í mjólkina.)
Sýruþvotturinn á að vera heitur, gamlar sögusagnir um kaldann sýruþvott eru kenningar sem ekki eiga við lengur.
Þá og ef um er að ræða hreinsun röra sem í langflestum tilfellum er raunin jafnvel í róbótafjósum, þarf hraði þvottavatnsins bæði sápu og sýru að vera mikill helst 7 -10 m.sec. ef árangur á að vera góður.
Of mikið vatnsmagn hefur áhrif á hraða þvottavatnsins, betra að hafa minna vatn og meiri hraða heldur en mikið vatn og lítinn hraða.

Aldrei á að forrita þvottakerfi þannig að þau bíði með sápurestar óskoluð fram að næstu mjöltum, slíkt er firra og fjarri allri skynsemi og auk þess að minka líftíma pakkninga og spenagúmmía.
Vitað er að þetta er gert sumsstaðar erlendir þar sem vatnsgæði eru óásættanleg.

Mjólkurtankurinn oftast sökudólgur.
Þegar bændum verður á í messunni er oft um að ræða mjólkurtankinn, oft óþvottur eða kominn í hann mjólkursteinn eða útfellingar úr vatni t.d. kísill úr hitaveituvatni.

Það er mjög algengt að bændur taka ekki eftir steinmyndun í mjólkurtönkum jafnvel þó þeir telji sig sýruþvo reglulega, það er til gott ráð til að sjá þetta, skolið tankinn innan með heitu vatni eftir þvott og látið tankinn þorna og þá ef það er steinmyndum inní tanknum eða mikil steinlegin svæði sjást þau greinilega, oftast sem grámi og eða þunn skán sem rispast ef skafið er í hana með nöglinni.

Blautur tankur eftir þvott sýnist ævinlega hreinn en er oft steinlagður á stórum svæðum.
Ef tankurinn er opinn gerð þ.e. ekki með sjálfvirku þvottakerfi og mannopi eingöngu þá þarf að láta súra efnið liggja í tanknum og bursta það uppá gafla og hliðar mörgu sinnum og láta það standa á stálinu í 4 – 5 klst og láta sýruna vinna sjálf, því það er ógjörningur að ná miklum steini með því að bursta í nokkrar mínútur eingöngu.
Það þarf að hafa sýrulögunina mjög sterka 5-7% og mín reynsla er að Súlfamin sýruduft t.d. Mjöll/Frigg vinnur best í steinhreinsun stáls.

Varðandi lokuðu mjólkurtankana verður að segjast að þar eru bændur of oft að lenda í óþarfa verðskerðingu vegna þess að þeir treysta í blindni á sjálfvirka þvottakerfið og kíkja ekki ofan í tankinn tómann fyrr en allt er komið í háaloft og mjólkureftirlitsmaðurinn heima á hlaði.

Ástæðan er oft biluð sápu eða sýrudæla, tómur sápu eða sýrubrúsi eða kalt þvottavatn.
Því miður gerist þetta of oft og er verulega gremjulegt fyrir bóndann sem vill vel.
Þá má ekki gleyma því að tankur sem er lengi að kæla veldur hækkun líftölu og er það algengur orsakavaldur hárrar líftölu.

Mjólkurtankurinn lengir kælitímann til muna þegar hlýnar í veðri og kuldakærum gerlum fjölgar hraðar en ella og hífa upp heildargerlatöluna.
Þess vegna þarf að hreinsa kæliristina (kondensinn) og loftræsta eins vel og unnt er að tanknum.
Bilanir á mjólkurtömkum eru tíðastar á vorin þegar hlýnar og skýrist það að lang mestu leiti á þessum atriðum þ.e. of þéttri kælirist vegna óhreininda.
Þarna eru þó undanþegnir nýjir tankar með vatnskældri kælivél sem er hið mesta þarfaþing.

Sparibaukurinn / Forkælirinn
Allir sem hafa nægilegt kalt vatn ættu að vera með vatnsforkælingu á mjólkinni áður en hún fer í mjólkurtankinn, það hefur sýnt sig að mjólkurgæði eru mun betri þar sem forkælt er og bóndinn verður fyrir minna áfalli tekjulega séð ef mjólkurtankurinn bilar því eftir góða forkælingu er mjólkin u.þ.b. 15-18°C kaldari en ef ekki væri forkælt.
Þá hefur forkæling áhrif til lækkunnar frírra fitusýra FFS þar sem heit mjólk er óæskilegri til blöndunar við kalda mjólk í mjólkurtanknum.
Snögg hækkun líftölu er mjög oft kælirof, t.d. bilun, rafmagnsleysi, gleymt að setja kælinguna á í fyrsta mál en þá er mjólkin í tanknum nær undantekningarlaust ónýt sé hitastig hennar yfir 10 °C í 8 klst eða meira, fer nokkuð eftir upphafinu þ.e. gæðum og líftölu mjólkurinnar í byrjun þ.e. eftir mjaltir.

Dýrkeyptur sjans!
Verst er þegar bændur “taka sjansinn” og senda vankælda mjólk frá sér (örugglega oftast í góðri trú og vegna vanmats) án þess að hafa samband við mjólkureftirlitsmann áður og fá hans álit, því svona kælislys geta eyðilagt tugi þúsunda lítra af góðri mjólk annanrra innleggjenda í mjólkurbílnum, í silótank í afurðastöðinni og það sem verra er getur þetta í versta falli ollið miklu tjóni á þeirri framleiðsluvöru sem unnin er úr hinu skemmda hráefni komist það í vinnsluferli í afurðastöðinni.

Aldrei skildi gangsetja kælingu að morgni hafi gleymst að gangsetja eftir fyrstu mjaltir kvöldið áður, mjólkin er ónýt og ber að farga, en margir hafa gert þau mistök að dæma vankælda mjólk söluhæfa eftir smökkun en slík aðferð til ákvörðunar gæða mjólkur er algjörlega ómarktæk og blekkir smakkandann, það er ekki fyrr en 1-2 sólarhringum síðar sem óbragð fer að finnast af vankældri mjólk, veit um mörg tilfelli og get t.d. nefnt eitt þar sem framleiðandinn sagðist ekki hafa fundið neitt óbragð af mjólkinni sem reynist við mælingu vera 3,5 milj. í líftölu og 4 flokks mjólk.

Verið ætíð vakandi fyrir breytingu á kælitíma mjólkurtanksins og látið vita ef þið eruð í minnsta vafa, mjólkureftirlitsmennirnir eru ykkar ráðgjafar og hjálparhellur sem eiga að aðstoða ykkur við að ná réttri lendingu í vafamálum.

Og blessaðir róbótarnir.
Varðandi líftölu mjaltaþjónafjósa er ljóst að hún er mjög misjöfn og þar steitir ekki á þvotti kerfisins heldur þrifum kúnna, ef passað er uppá sápuskömmtun og sápubrúsana (muna eftir að sparka í þá reglulega til að kanna stöðu þeirra) og halda góðum þrifum fjóss og nánasta umhverfi róbótanns.
Þá er verulegur ávinnningur í því að klippa kýrnar, sér í lagi júgur, læri og kvið vegna nándarinnar við mjaltabúnaðinn og einnig vegna þess að mjaltaþjónninn er mun öruggari við ásetu mjaltahylkjana, þ.e. lazergeislinn sér spenana miklu betur ef ekki eru hárbrúskar og drullukleprar að móast fyrir.
Það er reynsla mín að róbótafjós með lága líftölu eiga það sameiginlegt að þar eru básar þurrir og borið í þá daglega, kýr eru hreinar og nær alltaf reynt að halda mjaltaklefanum eins hreinum og unnt er, þ.e. smúlað er frá honum oft á dag og vel skafnar gönguleiðir kúnna.

Kenningin er einföld, bóndinn þarf að tryggja róbótanum þrifalegt vinnu umhverfi og hreinar kýr þá gengur þetta ágætlega.
Ef menn nenna því ekki þá einfaldlega gengur þetta ekki upp.
Aldrei verður nægilega á það bent að slæm eða léleg loftræsting í fjósum hefur neikvæð áhrif á alla gæðaþætti t.d. líftölu og vaxtarskilyrði alls kyns sýkla, grómyndandi gerla, sveppa og þess háttar ófögnuðar batna við hærra rakastig og heitara umhverfi.
Svo ekki sé nú minnst ákjósanleg skilyrði fyrir myndun flugnaplágu sem er hreinasta sóðaplága og er skaðleg bæði mjólkurgæðum og heilsufari gripa í fjósinu.

Samantekt.
Vendipunktarnir sem hafa mest vægi í líftölu eru hreinlæti við mjaltir, hirðing kúa, þvottur og þrif mjaltakerfis og mjólkurtanks og síðast en ekki síst kælitími mjólkurinnar niður í 3,5°C.
Hreint loft - góð þrif - hreinar kýr - hröð kæling - engar flugur = líftölulág mjólk, líkleg bónusgreiðsla og aukabónus að mjólkureftirlitsmaðurinn sést aldrei.

Kristján Gunnarsson
Ráðgjafi