Viltu bónus? 3.hluti Fríar fitusýrur

Í þessum síðasta hluta bónusgreina verður fjallað um fríar fitusýrur í mjólk.

Þar sem fríar fitusýrur í mjólk (hér eftir sk.stafað ffs) eru einn af gæðaþáttunum sem greitt er eftir og verðskert fyrir verður hér reynt að fjalla nokkuð um leiðir til að losna við hátt gildi ffs í tankmjólk mjólkurframleiðenda.
Trúlega geta há gildi mælinga ffs verið erfiðasti hjallinn í gæðum mjólkur að brölta yfir og fá í gott lag einfaldlega vegna þess hversu margir ólíkir þættir geta haft áhrif til hækkunar á ffs í mjólk framleiðenda.

Hvað er eðlilegt.
Magn frírra fitusýra í mjólk á helst ekki að fara upp fyrir 0,7 og alls ekki yfir 1,0.
Ffs er mælt í micromol í ml mjólkur og eru reglugerðarákvæðin vegna gæðamats þau að ef faldmeðaltal mælinga úr reglubundnum sýnum á mánaðargrunni fer yfir 1,1 m.mol dæmist mjólk viðkomandi framleiðanda í 2 flokk og verðskerðist samkvæmt reglugerð og fari faldmeðaltal mánaðar yfir 1,8 m.mol er mjókin í 3.flokk og verðskerðist eftir því.
Góð mjólk í ffs er 0,6 og undir en þegar mjólkin er yfir 1,0 eru næmir neytendur farnir að finna óbragð af mjólkinni og ef magn ffs er orðið yfir 1,8 m.mol eru nær allir farnir að finna óbragð sem lýst er eins og samblandi beiskju og einkennilegs óbrags sem er svo svæsið að þeir sem einu sinni smakka slíka mjólk gleyma bragðinu aldrei.

Sér í lagi á þetta við þegar mjólk er orðin dagsgömul og svo ekki sé nú minnst á tveggja daga gamla mjólk og eldri því þá fer að finnast skrítin lykt af henni langar leiðir.
Það er því ekki að undra þó mjólkuriðnaðurinn reyni að losna við þennan hvimleiða galla á mjólkinni ef sýni úr tankmjólk framleienda gefa tilefni til.

Erfitt að finna orsök.
Mjólkureftirlitsmenn hafa oft lent í algjörum hremmingum með að finna ástæður hárra gilda á einstökum bæjum og kemur það til af því að þegar ástæðan er ekki augljós og finnst strax, þá er líklegt að leita þurfi með ótrúlegri nákvæmni og fara í fjölmarga trúlega þætti eða langsóttari og erfiðari að laga s.s lífeðlifræðlegar ástæður einstakra gripa og jafnvel heilu hjarðanna þar sem allar mjólkandni kýr fá sama fóður.

Það getur verið auðvelt að finna ástæður hárra mælinga í ffs en einnig leiðinlega flókið ef ástæðan er ekki vélræns eðlis heldur af fóðrunar ástæðum og oft í bland við stöðu á mjaltaskeiði og týðni mjalta (mjaltaþjónafjós)
Þetta er ekki einfalt og kostar oft mikla yfirlegu og kunnáttu í fóðrun kúa.

Sýnatakan ekki heilög Biblía.
Ekki er víst að háar mælingar ffs séu ævinlega eins bölvaðar og sýnist því sýnatökubúnaður og aðferð við sýnatöku úr kúm er oft að valda hækkun á mælingargildum ffs ekki síst í mjaltaþjónafjósum, en þó er líklegt að stöðugar háar mælingar úr einstökum kúm séu í raun háar en e.t.v. ekki eins háar og niðurstaðan síðan segir til um.
Þetta hefur verið margsannað með tvöfaldri sýnatöku þ.e. vélrænni og handvirkri með.

Brothætt fitukúla.
Það má segja að ef ástæðan er ekki augljós megi reyna að velja um tvær megin leiðir til að ná niður háum gildum ffs, fyrri leiðin er að finna ráð til að styrkja hráefnið því hægt er með sanni að segja að mjólk úr kúm á krítisku tímabili geti verið brothætt þ.e. að himnan sem umliggur fitukúlurnar er þá viðkvæmari fyrir gauraganginum sem verður þegar úr júgrinu er komið og út í hinn harða heim og þá er hugsanlega hægt að styrkja hana (mjólkina) með rannsóknum á fyrrnefndum þáttum, t.d. að kýr í mjaltaþjónafjósunum undir 8 kg í dagsnyt komi ekki oftar í mjaltir en á 15 klst fresti, einnig að kýr yfir 300 daga frá burði en mjólkar yfir 8 kg fái ekki mjaltaheimild oftar en 2x á sólarhring, að skoða úrefnastöðu kúnna, gefa fituminna fóður, skoða efnainnihald fóðurs s.s. kjarnfóðurs og heilfóðurs og reyna að pikka út og laga ef hægt er þá þætti sem taldir eru kritiskir vegna aukningar á ffs í mjólkinni þannig að hún þoli betur vélræna meðferð við og eftir mjaltir, s.s. mjaltirnar sjálfar, dælingu úr skila í mjólkurtank og síðan kælingu og hrærslu mjólkurtakanns og að ógleymdu dælingu í mjólkurbílinn og meðferð mjólkur í sílotönkum afurðastöðvana.

Fóðrun kúa hefur jafnframt mikil áhrif á gildi ffs þ.e hve sterk himnan verður sem umlykur fitukúluna og hvort hún verður „brothætt“ eða ekki og því þarf að skoða úrefnainnhald sýna allra kúa í hjörðinni, prótein og fituinnihald, jafnvel gildi laktosa viðkomandi kúa í slagtogi við hátt úrefnainnihald getur verið vísbending um ástæðu viðkomandi grips í háum gildum ffs.

Þeir félagar bjarga oft.
Eins og sést og dæmi eru um getur verið mjög strembið að finna leiðina út úr langvinnum hremmingum vegna hárra gilda ffs og þá er leiðin sú ef ástæðan er ekki augljós og eða vélræns eðlis að þá fái viðkomadi bóndi ráðgjöf, heimsókn og skoðun tveggja aðila þ.e. mjólkureftirlitsmanns og ráðunauts um fóðrun gripa því þeir „félagar“ eiga með góðri samvinnu að geta fundið leið út úr leiðinlega erfiðum dæmum og hafa gert það vel.

Mjúka leiðin.
Þá er það seinni leiðin, að míkja meðhöndlun mjólkurinnar ef hægt er s.s. lækka sog og blástur, stytta dælutíma, breyta mjólkurtankanum þannig að hann frysti ekki mjólkina t.d. skipta yfir í kæliefnið r134a ef r404 eða kaldara efni er á kælikerfinu, virkja bæði kælielementin í tanknum, stytta hrærutíma, tíma lotukælingar, setja heitgasventil og stilla hrærslu þannig að tankurinn hræru-píski mjólkina sem minnst sérstaklega þegar lítið er í tanknum og í mjaltaþjónafjósum ætti að setja á langa kælitöf eftir losun og hafa hana ekki minna en 3 klst eða 180 mín.

Það krefst þess að þrif mjaltaþjóna, hreinleiki kúa og fjóss sé mjög góð svo líftalan þoli lengri kælitíma án þess að fara veg allrar veraldar uppá við.

Best er örugglega að reyna að fá vit í báða þættina þ.e. að styrkja hráefnið þannig að fitukúlurnar verði ekki eins „brothættar“ og laga vélrænu meðferðina eins og kostur er.

Eins og áður var vikið að, stöðu á mjaltaskeiði, nythæð, týðni mjalta, orkustöðuna í viðkomandi, magn lactosa ásamt úrefnastöðu og svo síðast en ekki síst fitumagn í kjarnfóðri og gæði heys.

Þarna er greinarhöfundur kominn á hálann ís vegna vankunnáttu á fóðrun og fóðurfræði, en mér sýnist samt eftir lestur margra greina um ffs vandamál að fræðifólki sé ekki ennþá alveg 100% ljóst hversu mikið vægi einstaka lífeðlisfræðilegir og líffræðilegir þættir hafi mest áhrif á magn ffs í mjólk og hvað beri nákvmlega að gera þ.e. svo það virki en sé ekki eingöngu eftir bókinni en virki ekki.

Vélræna vesenið.
Nokkuð margir meðhöndlunar þættir geta orsakað hátt hlutfall frírra fitusýra t.d. loftblöndun mjólkurinnar t.d. óeðlilegt loftinnpísk í óþéttum mjaltakerfum,tengistútum (mjókurkrönum) eða mjaltatækjum með of stórt loftinntak.
Þá göt á slöngum eða spenagúmmíum við mjaltir eða klaufagangur við ásetu tækjanna.

Mjólkurdælan er vinsæll leitarstaður þar sem hún getur farið ótrúlega ílla með mjólkina ef hún tekur loft eða dælir fantalega og ber því að reyna að þétta öxulloftpísk og mýkja dælingu eins og kostur er.

Síðan er pískun frá hræruverki mjólkurtanks eins og áður er vikið að oft orsakavaldur þ.e. ef hægt mjólkast í tankinn og hræruspaðinn lemur mjólkina og þeitir henni upp svo hún blandast miklu loftmagni og þá gerist oft annað í leiðinni en það er frost eða klakamyndun í mjólkurtanknum sem hefur sömu skemmdaráhrif á mjólkina og loftpískunin, sjá hér á undan.

Mjólkurstöðvarnar líti í eigin barm í leiðinni.
Það er ekki og hefur ekki verið stefna og takmark mjólkuriðnaðarins eingöngu að rasskella mjólkurframleiðandann vegna hárra gilda í ffs heldur er takmarkið að gæðin skili sér í gengum allt ferlið og endi sem drykkjarhæf mjólk í fernunni á borði neytandans.

Þess vegna er það haft að leyðarljósi og er skylda mjólkursamlaga á landinu að líta jafnframt í eiginn barm með því að móttaka og meðferð mjólkur frá framleiðendum sé meðhöndluð á faglegann hátt allt frá mjólkurbílnum, innviktuninni, sílotankanum, í ferðalagi sínu um rörverk afurðastöðvana og endi í átöppunardeildinni sem úrvalsmjólk.

Það mundi því vera boðskapnum trúverðugt að senda nokkur sýni úr sílótönkum eða innviktunartank afurðastöðva og síðan úr endastöð vinnslulínu t.d. átöppunardeild eða við skyrtank og kíkja eftir hvort góða mjólkin frá framleiðandanum sé ekki enn sama góða mjólkin?

Kristján Gunnarsson ráðgjafi